Reynt að draga úr áhrifum verkfallsins á Grundarheimilin

Á morgun, miðvikudaginn 15. febrúar, hefst að öllu óbreyttu verkfall hjá vörubílstjórum og bílstjórum olíudreifingar. Það mun að öllum líkindum hafa einhver áhrif á starfsemi Grundarheimilanna og því miður má gera ráð fyrir skerðingu á þjónustu og starfsemi. Við höfum tryggt eldsneyti í nokkrar vikur til að tryggja flutning á matvælum og þvotti milli Hveragerðis og Reykjavíkur. Ennfremur er birgðastaða nokkuð góð hjá okkur bæði hvað varðar mat og hjúkrunarvörur og sumir birgjar eru með rafmagnsbíla. Þá höfum við aðgang að nokkrum rafmagnsbílum og strætó hefur gefið út að þeir hafi eldsneytisbirgðir í tíu til fjórtán daga. Grundarheimilin eru aðili að Samtökum fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu og hafa þau sótt um undanþágur fyrir starfsfólk aðildarfélaga að eldsneyti og lagt áherslu á að samgöngutæki fái að ganga. Binda samtökin vonir við að þær undanþágur verði veittar. Að sjálfsögðu munum við eftir bestu getu reyna að draga úr áhrifum verkfallsins á starfsemi Grundarheimilanna.