Heimilismenn líta á Grundarheimilin sem sitt heimili

Heimilismenn á Grundarheimilunum eru ánægðir með hjúkrunarheimilið sem þeir búa á og meta lífsgæði sín betri þar en ef þeir byggju enn heima. Aðstandendur eru sömu skoðunar.  Heimilismenn telja sig örugga á heimilinu sem þeir búa á og 78% þeirra segjast líta á  Grundarheimilið sem sitt eigið. Aðstandendur eru ánægðir með samskipti sín við starfsfólkið sem og með læknis- og hjúkrunarþjónustu. Þeim  finnst heimilislegt  á Grundarheimilunum og heimilismenn finna umhyggju hjá starfsfólki. Um 40% aðstandenda telur að heimilismenn hafi flutt á réttum tíma á hjúkrunarheimilið  en álíka stórt hlutfall  telur að þeir hefðu mátt flytja fyrr.

Þetta kemur m.a. fram í þjónustukönnun sem framkvæmd var meðal heimilismanna og aðstandenda  fyrir Grundarheimilin síðastliðið vor af þekkingarfyrirtækinu Prósent.

Könnunin meðal  heimilismanna var framkvæmd með einkaviðtölum og var þátttaka tæp 90% af úrtakinu. Könnunin meðal aðstandenda fór fram með netkönnun sem send var í tölvupósti og var svarhlutfall 48% af úrtakinu.

Að auki var framkvæmd viðhorfskönnun meðal almennings um viðhorf þeirra til hjúkrunarheimila og heilbrigðismála þeim tengt sem fór fram með netkönnun.

Þá kom í ljós að 56% landsmanna eru jákvæðir gagnvart hjúkrunarheimilum en telja að ríkið þurfi að standa sig betur þegar kemur að málefnum hjúkrunarheimila og að auka þurfi fjárframlög til þeirra.

Tilgangurinn með þjónustukönnuninni var að gefa stjórnendum og starfsmönnum innsýn í líðan og upplifun  heimilisfólks og átta sig þannig á því hvað vel er gert og hvar má gera enn betur.  Auk þess var talið gott að fá fram viðhorf aðstandenda og almennings til hjúkrunarheimila og þeirrar þjónustu sem þar er veitt.  Álíka viðamikil viðhorfs- og þjónustukönnun hefur ekki áður verið gerð á hjúkrunarheimilum hér á landi og eru þær upplýsingar sem fengust með henni mikilvægar í gæða- og umbótastarfi Grundar.

Könnunin gaf til kynna að ástæða sé til að bæta upplýsingagjöf um það sem heimilismönnum stendur til boða hvað varðar til dæmis afþreyingu og einnig þarf að finna leiðir sem auðvelda aðstandendum samskiptin við heimilin.

Niðurstöðurnar eru afar ánægjulegar  fyrir Grundarheimilin og hvetjandi fyrir stjórnendur og starfsfólk.  Í  kjölfarið verður nú rýnt i hvar hægt er að bæta um betur.