Afmælis- og foreldrakaffi á Grund

Í síðustu viku var haldið afmælis- og foreldrakaffi á Grund. Heimilið fagnaði 99 ára afmæli sínu þann 29. október síðastliðinn en einnig hefur svo áratugum skiptir verið haldið um svipað leyti og nú samtímis afmælinu svokallað foreldrakaffi. Hefðin á á bakvið það á sér langa sögu. Grund var stofnuð með almennum samskotum sumarið 1922 og í byrjun september það ár var Grund keypt sem var steinhús við Kaplaskjólsveg. Húsið varð fljótt alltof lítið því þörfin á húsnæði fyrir aldraða var brýn. Framtíðarsýn stjórnar Grundar var að ráðast í byggingu stærra heimilis.
Sveinn Jónsson kaupmaður í Reykjavík, oft nefndur Sveinn í Völundi, kom á fund stjórnar Grundar þann 10. desember árið 1924 og tilkynnti að hann og systkini hans vildu gefa þúsund krónur í húsbyggingarsjóð heimilisins til minningar um foreldra þeirra Jón Helgason og Guðrúnu Sveinsdóttur frá Steinum undir Eyjafjöllum. Þetta var myndarleg upphæð á þessum tíma og eina skilyrðið sem fylgdi gjöfinni var að jafnan skyldi á heimilinu haldið upp á brúðkaupsdag þeirra hjóna 26. október ár hvert. Þaðan kemur semsagt nafnið foreldrakaffi og þessi skemmtilega hefð sem við enn í dag höldum á lofti.
Systkinin komu þennan dag á hverju ári á heimilið eftir þetta, meðan þeim entist líf og heilsa og gáfu þá um leið heimilinu meira en afmælisveislan kostaði hverju sinni.