Verum ósammála en kurteis

Umræða í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum er allskonar.  Oft á tíðum notað hæsta stig lýsingarorða og ekkert gefið eftir í yfirlýsingum, fúkyrðum og skömmum.  Og oftar en ekki er persóna viðkomandi embættis til dæmis, dregin inn í óvægna umræðu í stað þess að gagnrýna og rökræða málefnið sem ágreiningur snýst um.

Að sjálfsögðu er ekki ætlast til þess að allir séu sammála, eða allir hafi sama smekk og sem betur fer þá er skoðana- og tjáningafrelsi í landinu.  Það eru ekki allir jarðarbúar svo heppnir.  En margir hverjir veigra sér við að tjá sínar skoðanir af því að þeir fá skammir, uppnefni, einelti og skítkast af því að þeir eru ekki á sömu skoðun og þeir sem telja sig allt vita og geta. 

Við sem rekum hjúkrunarheimili landsins höfum verið í miklum öldusjó undanfarin tvö ár.  Mikið hefur gengið á, heimsóknarbann, heimsóknartakmarkanir, veikindi heimilis- og starfsmanna, bólusetningar heimilis- og starfsmanna, margskonar takmörkun á starfseminni, erfiðleikar í rekstri og svo mætti lengi telja.  Við höfum gert allt sem við getum til að hámarka hag og velsæld þeirra sem búa hjá okkur og starfa.  Slíkar aðgerðir eru og munu alltaf verða umdeildar, en þær eru gerðar í góðri trú og byggjast á þeim bestu upplýsingum og gögnum sem fyrir liggja.  En þessar ákvarðanir eru eðlilega umdeildar.  Og það er fínt að rökræða þær, skiptast á skoðunum og rökum, með og á móti.  Ég er meira en til í svoleiðis skoðanaskipti.  En það er lágmarkskrafa að vera kurteis.  Og lang- langflestir eru það, en ekki alveg allir.

Kurteisi kostar ekkert, og skilar alltaf miklu meiri árangri en dónaskapurinn.

 

Kveðja og góða helgi,

Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna