Sumarbyrjun ??

Nú styttist í sumarið, þó að veðurfarslega sé ekki að sjá það. Við vonum það besta og reiknum með að við fáum betra sumar eftir rysjótt vorið. Veðrið hefur sett strik í reikninginn hjá okkur á Grundarheimilunum t.d. hefur púttvöllurinn sem að við erum með í Mörkinni látið verulega á sjá. Við eigum von á því að geta opnað hann fljótlega, þó að hann verði ekki orðinn iðagrænn. Við leitum ráðlegginga til færustu golfvallarsérfræðinga í þeim efnum og fylgjum þeirra ráðum. Víða hafa nýþvegnir gluggar i Mörk og Ási líka fengið að kenna á rokinu og erfitt að sjá út.

Það sem að fylgir vorinu og upphafi sumars hjá okkur er svo fjöldinn allur af sumarstarfsfólki sem að kemur til starfa til að hleypa okkur sem að venjulega stöndum vaktina í kærkomið frí. Hópurinn er að venju stór og fjölbreyttur og hef ég notað tækifærið til þess að hitta nýliðana okkar sem að þegar eru komnir til starfa í nýliðafræðslu sem að er byrjuð hjá okkur á öllum heimilum. Næsti hópur byrjar svo í byrjun júní í fræðslunni, en fræðslan er keyrð í tveimur hópum þar sem að starfsmenn byrja á misjöfnum tímum. Við þetta tilefni hef ég notað tækifærið og kynnt þeim eitt það allra mikilvægasta sem að við verðum að hafa í huga við þjónustu þeirra sem að þurfa á okkar þjónustu að halda. Að mínu mati er það eitt af gildum Grundarheimilanna, virðing. Öll viljum við njóta virðingar og mikilvægt að við gætum þess í störfum okkur að gleyma því ekki í samskiptum við aðra. Við berum virðingu fyrir samstarfsfólki, heimilisfólki, aðstandendum o.fl. og ætlumst til að fá virðingu til baka. Við þurfum ekki að vera sammála til að sýna skoðunum og lífsýn annarra virðingu. Alltaf er gott að hafa hugfast hvað maður sjálfur myndi vilja þegar að einhver gengur mjög nálægt manni í að sinna persónulegum þörfum. Við þurfum líka að muna það að spyrja heimilisfólk hvað það vill og sýna skoðunum þeirra og vali viðringu með því að nálgast þau eins og við sjálf myndum vilja. Viljum við ekki vera spurð um hvað við viljum borða í morgunmat? Viljum við láta tala um okkur eða við okkur? Margt smátt sem að við getum gert sem að skiptir gríðarlegu máli.

Ég býð alla okkar frábæru nýliða velkomna til starfa og hvet þá sem að fyrir eru til að taka vel á móti þeim og aðstoða við fyrstu skrefin í nýju starfi. Það ferli er lærdóms ríkt fyrir okkur öll.

Þessi vikupóstur er minn fyrsti sem nýr forstjóri Grundarheimilanna. Ég nota tækifærið til að þakka stjórn Grundarheimilanna traustið sem að mér er sýnt með því að fela mér þetta starf. Ég hef notið fyrstu dagana í starfinu og hlakka til áframhaldandi samstarfs hér eftr eins og síðustu 12 ár þar á undan í öðru hlutverki. Ég auglýsi sömuleiðis eftir góðum hugmyndum að umfjöllunar efni, af nógu er að taka og flott að fá fleiri hugmyndir frá ykkur.

 

Kveðja og góða helgi

Karl Óttar Einarsson

forstjóri Grundarheimilanna