Sonur minn er enginn hommi

hann er fullkominn eins og ég, söng Bubbi Morthens fyrir nokkrum áratugum.  Ferlega flottur texti hjá þessum frábæra tónlistarmanni.  Hárbeitt ádeila um fordóma margra á þeim tíma í garð samkynhneigðra.  Fordóma sem því  miður fyrirfinnast enn þann dag í dag, en í talsvert minna mæli en áður.  Eitt af því sem hefur slegið á þessa fordóma er þrotlaust starf Samtakanna 78 og svo eru það Hinsegin dagarnir sem hafa verið haldnir frá því um aldamótin.  Held að Gleðigangan hafi verið upphafið, eða öfugt, skiptir ekki máli.

Við búum í fjölbreyttu samfélagi.  Kynhneigð og menning er margskonar.  Við erum eins og við erum, tilvitnun í annan frábæran tónlistarmann, Pál Óskar.  Sem by the way, ætlar að dvelja á Glitter Grund í ellinni, það tilkynnti hann á tónleikum sínum sem ég sótti með Öldu fyrir nokkrum árum.

Þrátt fyrir viðsjárverða tíma þessi misserin þá höldum við á Grundarheimilunum Hinsegin dagana hátíðlega í dag þó við njótum ekki heimsókna á Grund og heimsóknartakmarkana á hinum heimilunum.  Við flöggum Regnbogafánanum víða og kokkarnir okkar bjóða upp á litríkt bakkelsi í anda Hinsegin daganna.  Þá verður sýnd heimildarmyndin Fjaðrafok sem fjallar um þróun og þroska Gleðigöngunnar.

Njótum litríks samfélags saman 😊

 

Kveðja og góða helgi,

Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna