Pissað í skóinn

Fékk símhringingu frá Sjúkratryggingum Íslands, eða heilbrigðisráðuneytinu, man það ekki alveg, fyrir nokkrum vikum.  Tilefnið var mjög erfið staða Landspítalans á þá leið að þar dveldu allt of margir aldraðir einstaklingar, sem ættu frekar að búa á hjúkrunarheimili en að eyða síðustu ævidögunum á hátæknisjúkrahúsi.  Sem er sko algjörlega satt.  En símtalinu fylgdi ótrúleg beiðni.  Hvort við gætum ekki bætt við rúmum í einstaklingsherbergi Grundar þannig að það kæmust tveir heimilismenn í eins manns herbergi.  Hoppað áratugi aftur í tímann í einu símtali.  Og pissað rækilega í báða skóna.  Ég trúði varla því sem ég heyrði, en þetta er dagsatt. 

Við á Grundarheimilunum, á Grund og í Ási, höfum sl. áratugi verið að fækka tvíbýlum og útbúið eins manns herbergi með sér baðherbergi fyrir hvern og einn.  Nokkur tvíbýli eru enn á Grund og sömu sögu er að segja úr Ási.  Við stefnum að því að þau verði öll úr sögunni á næstu árum.  En þarna var sem sagt verið að snúa við jákvæðri og skynsamlegri þróun undanfarinna ára á augabragði.  Einhverjir gætu sagt að þetta yrði bara til bráðabirgða og stæði stutt yfir.  En lítið til dæmis á Vífilsstaði sem Landspítalinn rekur.  Hefðbundnum hjúkrunarheimilisrekstri var hætt þar árið 2010, enda húsnæðið og öll aðstaða allsendis ófullnægjandi til slíks.  En viti menn, í lok árs 2013 var opnuð þar biðdeild LSH, til bráðabirgða og er enn rekið sem slík fyrir þá sem hafa lokið meðferð á sjúkrahúsinu og bíða þess að komast í varanlega dvöl á hjúkrunarheimili.  Þar búa í dag 42 einstaklingar.  Átta ára bráðabirgðaúrræði?  Hvað ætli langtímaúrræði nái yfir langan tíma?

Stjórnvöld hafa dregið lappirnar varðandi uppbyggingu nýrra hjúkrunarrýma á suðvesturhorni landsins um langt árabil.  Reglulega dúkkar upp umræða meðal opinberra aðila um aukna heimahjúkrun og heimaþjónustu, en eins og hingað til eru slík vilyrði því miður frekar á orði en borði.  Aukin þjónusta heim er að sjálfsögðu af hinu góða en hún dugar ekki til því aldurssamsetning þjóðarinnar er með þeim hætti að við þurfum einnig ný hjúkrunarrými.

Vonandi sér ný ríkisstjórn ljósið og dregur til baka þessar forneskjulegu hugmyndir um að fjölga einstaklingum í þeim herbergjum sem núverandi heimilismenn hjúkrunarheimila búa í í dag.  Pissið verður fljótt kalt í skónum.

 

Kveðja og góða helgi,

Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna