Hópsmit á hjúkrunarheimili

Í byrjun þessarar viku greindust tæplega 30 heimilismenn Litlu og Minni Grundar með Covid 19.  Eitthvað sem hefði sett alla starfsemi heimilisins á aðra hliðina fyrir rúmlega ári síðan þegar enginn var bólusettur, hvorki heimilismenn né starfsmenn.  En nú er öldin önnur, og miklu betri.  Þeir sem eru þríbólusettir eru ekki mikið veikir og munu vonandi hrista þetta af sér eins og hverja aðra flensu.  Sama er að segja um þá starfsmenn sem smitast, þeir eru lítið eða ekkert veikir.

Í umræðunni um bólusetningar gegn Covid 19 hefur margt komið fram og líklega ekki allt alveg samkvæmt sannleikanum.  Síðast í gær var fullyrt í fréttum á alnetinu að rannsókn í Skotlandi sýndi fram á að það væru meiri möguleikar á að láta lífið af völdum Covid 19 ef viðkomandi hefði verið bólusettur.  Eitthvað sem ég get ekki tekið undir.  Enda var ekki vísað til hvaða rannsóknar var um að ræða.  En áróður sem þessi kemst eflaust í undirmeðvitund einhverra, þeirra sem lesa til dæmis bara fyrirsagnir og kynna sér ekki málin til fullnustu.  Og það er ekki gott, því að mínu mati, athugið ég er ekki læknis- eða hjúkrunarmenntaður, þá hefur bólusetning heimilismanna hjúkrunarheimila bjargað mjög mörgum mannslífum.

Án bólusetningarinnar sem við njótum að hafa fengið í dag, hefði eflaust talsverður fjöldi heimilismanna Grundar látið lífið.  Eitthvað sem enginn sem rekur hjúkrunarheimili vill að gerist.  Bólusetning bjargar mannslífum, á því er enginn vafi í mínum huga.

 

Kveðja og góða helgi,

Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna