Gerðu það sem þú getur, með það sem þú hefur, þar sem þú ert

Las fantagóða bók um daginn sem fóstursonur minn Bárður Jens lánaði mér.  Við skiptumst dálítið á góðum bókum.  Hún heitir „The Stoic Challange, a Philosopher´s guide to becoming tougher, calmer and more resilient.“  Fjallar í stuttu máli hvernig skynsamlegast er að bregðast við áföllum í lífinu.  Stórum sem smáum.  Höfundurinn, William B. Irvine, er prófessor í heimspeki í Wright háskólanum í Dayton Ohio.  Hann hefur stúderað heimspekistefnu sem nefnist Stóustefnan.  Sú stefna mótaðist í Aþenu undir lok 4. aldar fyrir Krist.

Ætla ekki út í smáatriði en eins og ég las og skildi bókina þá finnst mér hún vera að hluta til í það minnsta, nánari útfærsla á Æðruleysisbæninni.  Hvernig maður tæklar þau áföll og  aðstæður sem þeim fylgja dags daglega.  Irvine skilgreinir áföllin sem próf Stóaguðanna sem okkur er falið að leysa.  Hann tekur reyndar fram að Stóuguðirnir séu ekki til, frekar en aðrir guðir.  Það mikilvægasta, til að leysa hvert próf með hæstu einkunn, er hvernig við bregðumst við áfallinu.  Margir leita að sökudólgum, öðrum en sjálfum sér.  Það sem kom fyrir er öðrum að kenna, ekki mér.  Að tapa körfuboltaleik er dómaranum að kenna, ekki að liðið mitt hafi verið lélegra.  Þekki þetta sem fyrrum körfuboltadómari.

Með því að líta á öll áföll, allar áskoranir sem verkefni eða próf, og leysa þau af bestu getu, með stóískri ró, líður okkur miklu betur en ella.  Það að reiðast eða fara í fýlu ef á móti blæs er auðvitað tóm vitleysa.  Auðvelt að segja, en erfiðara að framkvæma.  Mér fannst ég þó vera heldur á þessari leið Stóumanna en ekki, áður en ég las bókina góðu.  Og lífið verður ennþá skemmtilegra og auðveldara að lifa ef maður nálgast þessi lífsviðhorf og fer eftir þeim.

Eitt vakti sérstaka athygli mína við lestur bókarinnar en það er umfjöllun höfundar um sorgarviðbrögð. Elisabeth Kübler-Ross geðlæknir setti fram kenningu um fimm stig sorgar, afneitun, reiði, viðræðuferli, þunglyndi og sátt.  Eflaust margar þýðingar og skilgreiningar til á þessum stigum en læt þessar duga.  Stóaheimspekingarnir segja að maður eigi að fara beint í sáttina.  Við getum ekkert breytt því að einhver okkur náinn er látinn, við eigum ekki að eyða tíma og orku í hin stigin fjögur.  Finnst þetta vera dálítið útópískt og líklega fæstir sem fara beint þangað. En ætla engu að síður að velta þessu aðeins fyrir mér.

Kveðja og góða helgi,

Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna